„Er nokkuð annað en uppkosning í boði í NV þegar ekki er hægt að sanna að ekki hafi verið átt við kjörgögnin milli talninga, sem lögreglurannsókn hefur sýnt fram á að meðferð kjörgagna hafi verið brot á kosningalögum?“ spyr Lilja Rafney í færslu á Facebook-síðu sinni í dag.
Hún vísar þar til þess að kjörgögn hafi ekki verið innsigluð eða það tryggt með fullnægjandi hætti að enginn kæmist í þau frá því að fyrri lokatölur voru gefnar út í kjördæminu og þar til endurtalningin fór fram sem breytti öllu.
„Virðing við lýðræðið og traust á framkvæmd kosninga þarf að vera hafin yfir allan vafa,“ skrifar Lilja.
Hún hafði setið á þingi fyrir VG síðan 2009, sem oddviti kjördæmisins. Hún tapaði hins vegar í prófkjörinu í ár fyrir Bjarna Jónssyni sem leiddi listann í hennar stað og komst inn á þing. Lilja sat í öðru sæti listans og situr nú sem varaþingmaður.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra situr í undirbúningskjörbréfanefnd fyrir VG en nefndin hefur enn ekki klárað störf sín. Hún mun ekki skila af sér greinargerð fyrr en eftir að kjörbréfanefnd hefur verið kjörin eftir þingsetningu næsta þriðjudag.