Ríkisfjölmiðill Búrma (Mjanmar) segir að Suu Kyi sé ein sextán einstaklinga, þar á meðal fyrrverandi yfirmönnum kjörstjórna, sem eru nú sóttir til saka fyrir kosningasvik og lögleysu. Þeim er meðal annars gefið að sök að hafa ógnað fulltrúum héraðskjörstjórna, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Herinn handtók Suu Kyi þegar hann rændi völdum í landinu 1. febrúar. Hershöfðingjar héldu því fram að brögð hefðu verið í tafli í þingkosningum sem Lýðræðislandssamband (NLD) Suu Kyi sigraði í. Yfirkjörstjórn hafnaði þeim ásökunum.
Réttað er yfir Suu Kyi á bak við luktar dyr. Verjendur hennar mega ekki tjá sig um gang mála hennar vegna lögbanns sem yfirvöld lögðu á. Sameinuðu þjóðirnar hafa krafist þess að hún verði látin laus.
Talsmenn hersins fullyrða að farið sé vel með Suu Kyi, sem er 76 ára gömul, í haldi. Hún sé í stofufangelsi með fólkinu sínu og herinn reyni að að sinna óskum hennar og þörfum.