Handbolti

Fimm íslensk mörk er Gummersbach vann öruggan sigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach. Undir hans stjórn leika Hákon Daði Styrmisson og Elliði Snær Viðarsson.
Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach. Undir hans stjórn leika Hákon Daði Styrmisson og Elliði Snær Viðarsson. mynd/@vflgummersbach

Íslendingalið Gummersbach vann í kvöld öruggan fimm marka sigur, 26-31, er liðið heimsótti Hamm-Westfalen í þýsku B-deildinni í handbolta. Liðið hefur nú unnið níu af fyrstu tíu leikjum sínum á tímabilinu undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og liðin héldust í hendur lengst af. Heimamenn í Westfalen virtust þó vera einu skrefi á undan og fóru með eins marks forystu inn í hálfleikinn, 12-11.

Enn var jafnt með liðunum í upphafi seinni hálfleiks og þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka var allt jafnt, 19-19.

Þá tóku liðsmenn Gummersbach við sér og náðu fljótt fjögurra marka forskoti. Liðið hélt því forskoti út leikinn og vann að lokum góðan fimm marka sigur, 26-31.

Elliði Snær Viðarsson skoraði þrjú mörk fyrir Gummersbach og Hákon Daði Styrmisson tvö. Liðið er á toppi deildarinnar með 18 stig eftir níu leiki, sex stigum á undan Westfalen sem situr í þriðja sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×