Þetta segir Sólveig í færslu sem hún birti á Facebook fyrir stundu, þar sem hún segir einnig að þar sem það hefði ekki verið viðurkennt að staða verka- og láglaunafólks væri mjög slæm og ólíðandi, hefði ekki verið til staðar skilningur á því að hún þyrfti vinnufrið.
Sólveig Anna hefur ekki viljað veita viðtöl vegna ólgunnar innan Eflingar og hefur látið nægja að tjá sig um málið á Facebook.
„Það var aldrei viðurkennt að ég hefði umboð frá félagsfólki eftir kosningar sem ég og félagar mínir unnum með algjörum yfirburðum (þrátt fyrir að skrifstofa félagsins gerði allt til að koma í veg fyrir það , m.a. með því að starfsfólk skrifstofunnar sagði við þau sem komin voru til að kjósa að ég væri „klikkuð kerling“ og „snarbiluð“) til að umbreyta þeirri hörmulegu þjónustu sem félagsfólki var boðið uppá (t.d. aldrei nokkur tilraun gerð til að koma til móts við allt aðflutta verkafólkið, sem þó eru helmingur félagsfólks) og koma henni í mannsæmandi horf,“ segir Sólveig meðal annars.
Hún nefnir dæmi og segist meðal annars hafa verið gagnrýnd fyrir að borða ein inni á skrifstofu sinni.
„Þegar ég ávarpaði starfsfólk skrifstofu Eflingar síðasta föstudagsmorgun og bað þau um að liðsinna mér var ég í raun að biðja um einhverskonar vinnufrið. Vinnufriðinn sem aldrei hefur fengist viðurkennt að ég þyrfti og ætti rétt á,“ segir Sólveig.
Frið til að halda baráttunni áfram, segir hún.
„Ég bað starfsfólk í fullri einlægni um að veita mér hann. Þeirri beiðni var afdráttarlaust hafnað; herferðin inná vinnustaðnum, byggð á ofstæki og andúð í minn garð, skyldi halda áfram, með engan endi í sjónmáli. Því fór sem fór.“