Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands. Árshækkun sérbýlis mælist nú 21,1% og fjölbýlis 15,2%. Hækkunin milli mánaða á sérbýli er sú minnsta síðan í febrúar en þó er of snemmt að segja til um hvort farið sé að draga úr verðhækkunum á þeim markaði. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.
Árshækkun sérbýlis mælist nú 21,1% og fjölbýlis 15,2%. Hækkunin milli mánaða á sérbýli er sú minnsta síðan í febrúar. Hækkunin á íbúðaverði telst þó veruleg hækkun í sögulegu samhengi.
Íbúðaverð hækkað um 1,8% á mánuði að jafnaði frá því í mars á þessu ári. Er hækkunin núna milla mánaða því aðeins minni en sést hefur á árinu. Þó er enn talsvert í að fasteignamarkaðurinn komist í sama ástand og var fyrir faraldurinn.
33 prósent færri samningar undirritaðir en í fyrra
Samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár voru 656 kaupsamningar undirritaðir á höfuðborgarsvæðinu í september. Það eru 33% færri samningar en voru undirritaðir í sama mánuði í fyrra og 11% færri en voru undirritaðir í september 2019.
Þetta er annar mánuðurinn í röð þar sem mælist samdráttur milli ára á fjölda seldra íbúða og því mögulega til marks um kólnun á markaðnum. Þó er varasamt að draga ályktanir út frá einstaka mánuðum og því enn óljóst hvert stefnir.
Spá 14 prósent hækkun í ár
Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir því að eftirspurn eftir íbúðum komi til með að dragast saman á næstu misserum, meðal annars vegna vaxtahækkana. Einnig muni það hafa áhrif að neysluvenjur og daglegt líf eigi enn eftir að komast að fullu í hefðbundið horf í kjölfar faraldursins sem muni líklega leiða til þess að eftirspurn verður dreifðari yfir hagkerfið.
Í nýrri þjóðhags- og verðbólguspá bankans er gert ráð fyrir því að íbúðaverð hækki að jafnaði um 14% milli ára í ár, 9% á næsta ári og svo 4% og 5% árin þar á eftir. Spáin byggir á þeirri forsendu að hægja muni á eftirspurn á næstu mánuðum, en einnig að íbúðauppbygging verði jöfn og stöðug á komandi misserum.