Innlent

Ó­vænt sím­tal um ein­angrun á síðustu stundu fram­lengdi drauma­fríið á Ís­landi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Símtalið barst þegar hjónin voru komin út á Keflavíkurflugvöll á leið heim til Bandaríkjanna.
Símtalið barst þegar hjónin voru komin út á Keflavíkurflugvöll á leið heim til Bandaríkjanna. Vísir/Vilhelm

Draumafrí bandarísku hjónanna John og Kimberly Moran hér á landi var óvænt framlengt um tvær vikur, eftir að þau greindust með Covid-19 rétt áður en þau áttu að fara í flug heim.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá og ræða við John þar sem hann segir frá því hvernig þau hjónin hafi fengið óvænt símtal á Keflavíkurflugvelli, skömmu áður en þau áttu að stíga um borð í flugvélina heim á leið eftir það sem þau segja að hafi verið draumafrí hér á landi.

Segja þau frá því að þau hafi þurft að framvísa Covid-prófi til þess að fá að komast um borð í vél flugfélagsins Delta. Voru þau komin á Keflavíkurflugvöll þegar þau fengu símtalið með niðurstöðunum.

Sótt á flugvöllinn í sjúkrabíl

„Þetta er smitrakningarteymið á Íslandi“, segir John að hafi verið það hann heyrði röddina hinum megin línunnar segja.

Fékk hann þær upplýsingar um að hann og Kimberly hafi greinst jákvæð í Covid-prófinu og að þau þyrftu að fara í einangrun. Sjúkrabíll myndi koma og sækja þau innan hálftíma og þau flutt í einangrun í farsóttarhúsi. Þar þyrftu þau að dvelja þangað til að þau fengu neikvætt svar úr Covid-prófi.

Ástæða þess að John ræddi þetta mál við fjölmiðla er að hann virðist mjög ósáttur við viðbrögð Delta-flugfélagsins. Afskaplega illa hafi gengið að ná í fulltrúa þess til að afbóka flugið heim og panta nýtt flug að einangrun lokinni.

Þau hafi þurft að bíða lengi í síma og raunar hafi gengið svo illa að ná í Delta að eftir tveggja vikna einangrun hér á landi hafi þau ákveðið að fljúga heim með öðru flugfélagi.

Það var ekki fyrr en hjónin höfðu samband við Jackie Callaway, fréttamann ABC Action News, sem gat vakið athygli Delta á málinu að þau fengu svör frá flugfélaginu, og inneign að andvirði flugmiðanna sem þau gátu ekki nýtt eftir að hafa greinst með Covid-19.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×