Fjölmiðlafulltrúi Icelandair sendi frá sér tilkynningu í gær í kjölfar fyrirspurna fjölmiðla þar sem meðal annars sagði að fyrirtækið væri ósammála „túlkun Eflingar“ og að aðila greindi á um ákveðin efnisatriði málsins, meðal annars það hvort Ólöf hefði verið trúnaðarmaður þegar til uppsagnarinnar kom.
Skjáskot sem Vísir hefur undir höndum og heimildarmaður Vísis segir hafa verið tekin eftir að Ólöfu var sagt upp, sýna hins vegar að hún var enn skráð bæði trúnaðarmaður Eflingar og öryggistrúnaðarmaður. Sem slíkur sat hún í öryggisnefnd Air Iceland Connect.
Skráð sem öryggistrúnaðarmaður hjá Vinnueftirlitinu
Í tilkynningu um málið sem Efling sendi frá sér í gær sagði að yfirmenn Ólafar hefðu haldið því fram að þeir hefðu ekki haft vitneskju um stöðu Ólafar sem trúnaðarmanns.
Vísir hefur hins vegar undir höndum tölvupóst þar sem Ólöf er ávörpuð sem trúnaðarmaður og þá hefur Vinnueftirlitið staðfest að hún sé skráður öryggistrúnaðarmaður.
Ólöf hafi verið skráð sem slík af stjórnanda hjá Icelandair.
Efling hefur opnað heimasíðu til stuðnings Ólafar.