Vakthafandi veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að hann búist við áframhaldandi úrhelli á Norðurlandi í nótt og á morgun. Sér í lagi á Tröllaskaga við Siglufjörð.
Ríkisútvarpið greindi frá því í dag að aurskriður hafi fallið í Þingeyjarsveit í dag sökum mikillar úrkomu.
Ofanflóðasérfræðingur segir í samtali við Vísi að töluverðar líkur séu á áframhaldandi aurskriðum í Þingeyjarsýslu og á Tröllaskaga í nótt og á morgun. Nánari upplýsingar fást ekki að svo stöddu þar sem fundað er um ástandið í þessum rituðu orðum.
