„Það eru margir sem hafa lent í vandræðum vegna aðstæðna og kannski ekki allir nógu vel búnir,“ sagði hann.
„Það fór rúta hálf útaf veginum í Hrútafirði í morgun með 37 farþega innanborðs. Engum varð meint af og öllum komið í hús heilum á húfi. Eftir því sem ég best veit hefur ekki enn tekist að fjarlægja rútuna.“
Birgir bætti því við að einnig hefði borið á minniháttar atvikum vega foks í umdæminu, en engar skemmdir hefðu hlotist af og engin meiðsli á fólki.
„Svo er reyndar búið að loka hér veginum við Sauðá hér á Sauðárkróki þar sem hún er hætt að renna og það eru vísbendingar um að þar sé krapastífla. Þannig að við höfum gert ráðstafanir vegna þess, en við verðum að sjá hvað setur, hvort og hvenær stíflan brestur.“
Aðspurður um hvort ferðalangar eða ferðaþjónustuaðilar hefðu átt að vera á ferðinni við þessar aðstæður sagði Birgir:
„Við biðluðum til fólks í gær að vera ekki á ferðinni í dag vegna veðurs, þannig að kannski er þetta eitthvað sem við viljum síður sjá, þegar er teflt í tvísýnu, en það er bara svona sem þetta er.“
Vonskuveður hefur verið um landið norðanvert í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti fyrr í dag duttu út Húsavíkurlína, Laxárlína 1 og Mjólkárlína 1 . Varð rafmagnslaust í örskamma stund á Húsavík af þessum sökum, en Vestfirðir eru keyrðir á varaafli vegna veðurs þar. Seinni partinn duttu Blöndulína 1 og 2 út en mjög slæmt veður á svæðinu .
Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti hélst rafmagn alls staðar, en verið er að meta tjón. Þetta gerist nokkuð oft og viðbragðskerfin hafi haldið vel, enda Landsnet flestu vant og starfsfólk vel undirbúið þegar kemur að svona veðrum.