Ríkisstjórnin hélt velli og það eru því aldrei þessu vant rólegir dagar framundan á Bessastöðum. Hefði ríkisstjórnin misst meirihluta hefði forsætisráðherra beðist lausnar og við hefðu tekið viðræður við leiðtoga þingflokkanna. En nú er boltinn hjá sitjandi ríkisstjórn.
„Nú er það í verkahring flokksformannanna að vega og meta stöðuna og sjá hvað gerist á næstu dögum og vikum en hér verður enginn hasar,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Þannig að það verða engir leiðtogar boðaðir á Bessastaði í dag?
„Engin þörf á því.“
En hvernig, og hvenær, verður þá þín aðkoma að þessu öllu saman?
„Hún verður bara einfaldlega sú að ég eins og aðrir í þessu landi fylgjumst með framvindu mála og sitji þessi ríkisstjórn til dæmis áfram, þá gerir hún það.“
Tíðindi að ríkisstjórnin hafi haldið velli
Guðni segir að fyrst og fremst sé íslenska þjóðin sigurvegari kosninganna. Það séu þó líka fleiri.
„Konur eru í fyrsta sinn á alþingi Íslendinga í meirihluta. Það eru tíðindi líka miðað við skoðanakannannir að ríkisstjórnarflokkarnir þrír héldu sínum meirihluta og vel það.“
Það sé sanngjarnt að stimpla Framsóknarflokkinn sigurvegara kosninganna þegar litið er á niðurstöðurnar.
„Þar að auki vann Flokkur fólksins sigur og það er sjálfsagt af minni hálfu að nefna það.“