Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, segir að verið sé að renna á miklum hraða úr hrauntjörn sem hafði verið að myndast og renni nú hraumstraumur niður í Nátthaga. „Það er verið að rýma gönguleið A og svæðið þar í kring.“
Gunnar segir að búið sé að kalla út björgunarsveitir og að væntanlega verði send út SMS þá og þegar um tímabundna lokun á svæðinu út af þessu.
Í tilkynningu sem send var á fjölmiðla nú um klukkan 11:20 segir að lokað hafi verið fyrir umferð að gosstöðvunum vegna hraunflæðis. „Er það gert af öryggisástæðum. Viðbragðsaðilar þurfa nú svigrúm til að meta að nýju aðstæður,“ segir í tilkynningunni.