Ekki er reiknað með hættu af hlaupinu en líklegt er að vatn í Héraðsvötnum fari vaxandi og að þau litist af aurburði. Þá gæti einhver brennisteinslykt fylgt hlaupinu og fólk er varað við því að dvelja við ána á meðan á hlaupinu stendur.
Áin rennur saman við Austari-Jökulsá um átta kílómetra sunnan við mynni Norðurárdals og mynda þær saman Héraðsvötn. Þjóðvegur eitt á milli Varmahlíðar og Akureyrar liggur með vötnunum á kafla.
Halldór Jóhann Einarsson, frjótæknir á Úlfsstöðum í Varmahlíð, hafði ekki heyrt tíðindin þegar fréttastofa náði af honum tali. Bær hans Úlfsstaðir eru hinum megin við Hringveginn frá Héraðsvötnum.
Hann sagði ekki að merkja aukningu í ánni enn sem komið væri. Halldór er fæddur og uppalinn á Úlfsstöðum og segir mjög sjaldgæft að flæði á haustin. Þau séu vanari flóðum á vorin í leysingum.
„Ég man ekki eftir svona haustflóðum,“ segir Halldór Jóhann.
Kolbrún Erla Grétarsdóttir, eiginkona Halldórs Jóhanns, fór í framhaldi af samtali fréttastofu við Halldór Jóhann niður að ánni. Hún segir í samtali við fréttastofu merkja breytingu á lit í ánni, hún væri orðin grá.