Bergerud kom til GOG frá Flensburg þar sem hann vann meðal annars þýska meistaratitilinn. Bergerud, sem er 27 ára, er í hópi bestu markvarða heims og hefur átt stóran þátt í góðum árangri norska landsliðsins á undanförnum árum.
Með komu Norðmannsins færðist Viktor aftar í goggunarröðina hjá GOG.
„Það hefur verið mjög áhugavert að æfa með honum og bera sig saman við hann. Þetta hefur verið mjög skemmtilegur mánuður en aðeins öðruvísi að sitja á bekknum. Ég hef ekki gert það oft á mínum ferli og alltaf fengið að spila mikið,“ sagði Viktor við Vísi.
Landsliðsmarkvörðinn unga grunar þó að þetta tímabil geti nýst vel í framtíðinni.
„Þetta verður öðruvísi tímabil og kannski erfitt andlega en ég held að ég geti lært ógeðslega mikið á því að vera annar markvörður. Þetta ár gæti orðið það þegar ég horfi til baka og sagt að þetta hafi verið mikilvægasta tímabilið á ferlinum,“ sagði Viktor.
Í gær var greint frá því að Viktor hefði samið við Nantes í Frakklandi. Hann fer þangað eftir tímabilið. Viktor, sem er 21 árs, hefur leikið með GOG síðan 2019.