Stóreignaskattur er eitt af kosningaloforðum Samfylkingarinnar og felur í sér 1,5% skatt á hverja milljón umfram 200ustu milljónina í hreina eign. Maður sem ætti milljarð í hreina eign myndi því borga 1,5% af 800 milljónum í skatt árlega, sem sé 12 milljónir.

Teitur Björn Einarsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, lýsti í viðtali í vikunni sem leið miklum efasemdum um lögmæti svona skatts gagnvart stjórnarskrá, enda kalli aðstæður í samfélaginu ekki á hann.
Sindri Stephensen lektor við lagadeild HR og Víðir Smári Petersen dósent við HÍ birtu grein á Vísi í dag þar sem þeir draga ályktanir af dómum Hæstaréttar í stóreignaskattsmálum og komast þar að þeirri niðurstöðu að stóreignaskattur sé að meginreglu stjórnskipulega gildur. Útfærslan skipti þar þó sannarlega máli og að gætt sé jafnræðis og meðalhófs.
„Þarna kemur fram í þessari grein í dag það sem við í Samfylkingunni höfum margbent á, að löggjafanum hefur verið játað mjög ríkt svigrúm til að ákvarða hvernig skattheimtu er háttað. Þetta er einfaldlega margstaðfest í dómafordæmum og ekkert ber að óttast,“ sagði Kristrún Frostadóttir, sem er oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Vilji ekki að efnaðasta fólkið styðji við samfélagið
Kristrún telur að sjálfstæðismenn séu að reyna að færa umræðuna frá málefninu og yfir í lagatæknileg atriði.
„Ég held að sjálfstæðismenn séu einfaldlega að reyna að koma sér undan efnislegri umræðu um þá staðreynd að þeir vilji ekki að ríkasta og efnaðasta fólkið í landinu styðji í auknum mæli við samfélagið og geri okkur kleift að dreifa hér aðeins byrðunum, sem er í rauninni til hagsældar fyrir okkur öll."
Kristrún hefur áhyggjur af auknum eignaójöfnuði og segir skattatillögur Samfylkingarinnar ábyrga leið til að stemma stigu við honum.
„Þessir þrír liðir, eignaskatturinn, hækkun veiðigjalda á stærstu útgerðirnar og aukið skattaeftirlit teljum við að muni skila okkur þeim tekjum sem við ætlum einfaldlega að eyrnamerkja beint barnafjölskyldum, eldri borgurum og öryrkjum.“