Rennsli hefur farið hægt minnkandi í Skaftá við Sveinstind síðustu klukkustundir. Rennslið 412 rúmmetrar á sekundu klukkan 14.30 í dag. Rennslið náði hámarki á miðnætti aðfaranótt 2. september og var þá um 520 rúmmetrar á sekúndu.
Þetta kemur fram í uppfærslu á vef Veðurstofu Íslands þar sem segir að miðað við framgang hlaupsins og fyrri hlaup úr vestari katlinum má gera ráð fyrir að hlaupvatn verði áfram í Skaftá næstu daga og rennslistölur háar miðað við árstíma.

Hlaupið, sem hófst í Skaftá á miðvikudaginn, er það fyrsta sem dynur á nýju brúnni yfir Eldvatn hjá Ásum, eftir að hún var opnuð umferð fyrir tæpum tveimur árum. Hún var reist í stað gömlu brúarinnar sem eyðilagðist í Skaftárhlaupi haustið 2015. Hlaupið núna er þó vart talið verða nema um fjórðungur af stærð hamfarahlaupsins fyrir sex árum.
Síðasta hlaup í Skaftá varð í september 2019, skömmu áður en nýja Eldvatnsbrúin var opnuð umferð. Það reyndist lítið en hlaupin úr vestri katlinum eru að jafnaði minni en hlaupin úr þeim eystri.
Ragnar Axelsson flaug yfir vestari sigketilinn í Skaftárjökli í gær og tók myndirnar að neðan.



