Ótrúleg björgun Sölva í leiknum í gær hefur verið mikið til umræðu enda sýndi fyrirliði Víkings mikið hugrekki þegar hann lagði höfuðið að veði og kom í veg fyrir að Valsmaðurinn Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði.
Í hlaðvarpinu Dr. Football í gær velti Hjörvar Hafliðason því upp hvort ekki hefði verið um háskaleik að ræða þegar Sölvi setti höfuðið fyrir.
„Ég skil pælinguna en ég held þeir hafi metið að það þannig að hann hafi verið að henda sér fyrir skot og það er ekkert sem bannar það,“ sagði Þóroddur í samtali við Vísi í dag.
Atvik sem þessi sjást ekki á hverjum degi, eða hverju ári, en Þóroddur vill meina að Helgi Mikael Jónasson, dómari leiksins, hafi tekið rétta ákvörðun í þessari stöðu.
„Ég skil það mjög vel að þeir hafi ekki dæmt á þetta og mat þeirra hafi verið að hann hafi hent sér fyrir skotið. Ef ég reyni að setja mig í aðstæðurnar held ég að maður hefði alltaf leyst þetta eins,“ sagði Þóroddur.
Með sigrinum í gær jafnaði Víkingur Val að stigum á toppi deildarinnar. Ef Víkingar hefðu unnið leikinn með tveggja marka mun hefðu þeir komist á toppinn en þökk sé marki Kaj Leos í Bartalsstovu í blálokin eru Valsmenn enn í 1. sætinu.
Næsti leikur Víkings er gegn FH í Kaplakrika á sunnudaginn.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.