Átján eru nú á Landspítalanum smitaðir af Covid-19, fimmtán á smitsjúkdómadeild og þrír á gjörgæslu. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir í samtali við Vísi að ljóst sé að Landspítalinn eigi í alvarlegum vanda, ekki síst vegna þess hversu hratt bylgjan vex nú.
Runnið sé nokkuð blint í sjóinn þar sem sóttvarnaaðgerðir nú séu töluvert vægari en í fyrri bylgjum faraldursins.
„Við sjáum á spálíkönum og fyrri reynslu að við erum ekki búin að sjá toppinn á þessari bylgju. Auk þess má búast við því að þessi bylgja verði stærri vegna þess að það eru ekki aðgerðir í samfélaginu með sama hætti og í fyrri bylgjum,“ segir Páll.
Fjöldi sjúklinga með Covid-19 á Landspítalanum nú er innan marka spálíkans sem unnið hefur verið eftir. „Það sem við höfum verið að sjá er um miðbik, á milli efri og neðri marka,“ segir Páll.
Mikið álag er nú á starfsfólki Landspítalans, meðal annars vegna þess að bylgjan hittir á sumarleyfatíma starfsfólks. Í tilkynningu sem spítalinn sendi frá sér í dag kom fram að álag væri sérstaklega mikið á bráðamóttöku og að þar gæti fólk átt von á löngum biðtíma.
Páll segir starfsfólk þreytt eftir langvinna baráttu við faraldurinn en því var það hvatt sérstaklega til þess að taka sér sumarfrí. Í ljósi stöðunnar sem nú er uppi þar sem spítalinn á erfitt með að manna sérhæfðar deildir hefur þurft að biðla til starfsfólks um að snúa fyrr aftur til vinnu úr fríi.