„Þar erum við að horfa á eldra fólk og fólk með undirliggjandi sjúkdóma. En það er enn til skoðunar og liggur ekki fyrir endanleg ákvörðun um hvernig það verður afmarkað,“ segir Katrín. Þá segir hún tímasetningu ekki liggja fyrir.
Endurbólusetning með bóluefni Janssen hófst í dag og voru kennarar og starfsfólk skóla í forgangi. Þá er stefnt að því að ljúka öllum endurbólusetningum með Janssen fyrir 20. ágúst. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir fólk hafa tekið nokkuð vel í að koma í annan skammt bólusetningarinnar, þó upphaflega hafi skammturinn aðeins átt að vera einn.
„Fólk tekur þessu ótrúlega vel. Það var alveg viðbúið að það yrði svolítið svekkelsi, af því að einn skammtur myndi ekki duga en fólk tekur þessu ótrúlega vel og ætlar greinilega bara að græja þetta, og gera þetta,“ segir hún.