Vilhjálmur staðfestir þetta við Fréttablaðið og segir að um sameiginlega ákvörðun þeirra hafi verið að ræða. Ingólfur, sem er betur þekktur sem Ingó Veðurguð, segir að þeir hafi sammælst um að verkefnið væri orðið það umfangsmikið að erfitt væri fyrir Vilhjálm að sinna því einn meðfram öðrum verkefnum.
Tónlistarmaðurinn kveðst í samtali við RÚV vera í viðræðum við þrjár lögfræðistofur vegna yfirvofandi málaferla sinna.
Sent minnst sex einstaklingum kröfubréf
Greint var frá því fyrr í mánuðinum að Vilhjálmur hafi fyrir hönd Ingólfs kært 32 nafnlausar sögur sem birtust á Tiktok-svæðinu Öfgar til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Einnig hefur Ingó krafist bóta og afsökunarbeiðna frá sex einstaklingum sem ýmist tjáðu sig opinberlega um meinta refsiverða háttsemi eða fluttu fréttir af sögunum. Í þeim er Ingólfur sakaður um kynferðilega áreitni og kynferðisbrot en hann hefur hafnað ásökununum.
Fram hefur komið að Ólöf Tara Harðardóttir einkaþjálfari, Kristlín Dís Ingilínardóttir blaðamaður á Fréttablaðinu, Sindri Þór Sigríðarson Hilmarsson, markaðsstjóri og fyrrverandi framkvæmdastjóri Pírata, Edda Falak, viðskiptafræðingur og aktívisti, Erla Dóra Magnúsdóttir blaðamaður á DV og Silja Björk Björnsdóttir, rithöfundur og rekstrarstjóri, hafi öll fengið kröfubréf frá Ingólfi vegna ummæla eða skrifa sinna.
Haraldur Þorleifsson frumkvöðull hefur boðist til að greiða lögfræðikostnað og miskabætur þeirra sem Ingólfur lögsækir.