Þetta staðfestir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri flugfélagsins, í samtali við fréttastofu. Hún segir hóp farþega hafa verið á leið í flug Play til Stansted í London á fjórða tímanum. Þeir gátu hins vegar ekki framvísað neikvæðu PCR-prófi, og því óheimilt samkvæmt breskum reglum að koma til Bretlands.
Þegar hópnum var tjáð þetta kom til rifrildis milli tveggja úr hópnum við þjónustuaðila Play á flugvellinum, og skárust þá lögregla og öryggisgæsla á vellinum í leikinn. Nadine segir að málið hafi þó verið farsællega leyst án nokkurra átaka.
Flugvélin hafi farið í loftið og farþegahópurinn orðið eftir á Íslandi, enda flugfélaginu óheimilt að fljúga honum til Bretlands. Ekki liggur fyrir hverrar þjóðar farþegarnir voru.