„Það er alvarlegt mál og hlýtur að vera fordæmalaust að forstjóri ríkisstofnunar komi fram opinberlega og ásaki samkeppnisaðila ranglega um skattalagabrot,“ segir Arnar í kröfubréfi til ÁTVR og Ívars J. Arndal forstjóra. Arnar hefur áður sagt í samtali við Morgunblaðið að hann ætli að leggja fram kæru á hendur Ívari fyrir rangar sakargiftir.
„Engum blöðum er um það að fletta að ásakanir þínar á hendur mér persónulega og félögunum Sante ehf. og Santewines SAS eru tilhæfulausar með öllu. Að bera saklausa menn röngum sakargiftum er refsivert,“ segir í kröfubréfinu.
Greint var frá því að á föstudag að ÁTVR hafi kært Arnar og félögin tvö til lögreglu og skattayfirvalda. Í kærunum er aðilarnir sakaðir um að standa ekki skil á innheimtum virðisaukaskatti og öðrum opinberum gjöldum.
Sé sannarlega með virðisaukaskattnúmer
Í kærunum var félagið Santewines SAS sagt vera án virðisaukaskattsnúmers og íslenskrar kennitölu. Það hafi því því enga heimild til að rukka virðisaukaskatt hér á landi. Arnar hafnar þessu.
„Með lágmarks fyrirhöfn hefði mátt leiða í ljós þá augljósu staðreynd að Santewines SAS hefur bæði íslenska kennitölu og virðisaukaskattsnúmer. Félagið gefur út reikninga með 11% virðisaukaskatti í samræmi við gildandi lög og hefur gert frá því félagið hóf starfsemi hér á landi. Hin íslenska kennitala og virðisaukaskattsnúmer voru skráð hjá Skattinum í apríl sl. en félagið hóf starfsemi í maí,“ segir í bréfinu til ÁTVR sem Arnar birtir fjölmiðlum.
Hann bætir við að ekki hafi orðið nein vanskil og öll aðflutningsgjöld vegna innflutnings á áfengi hafi verið greidd. Raunar sé gjalddagi vegna virðisaukaskatts í maí og júní, fyrstu rekstrarmánaða verslunarinnar, ekki fyrr en 5. ágúst.
„Allar ásakanir um skattsvik og undanskot eru rógburður,“ segir í bréfi Arnars.
Vill að kærurnar séu dregnar til baka
Með bréfinu krefst Arnar þess að áðurnefndar kærur verði dregnar til baka án tafar og afsökunarbeiðni birt með heilsíðuauglýsingum í Morgunblaðinu, Viðskiptablaðinu og Fréttablaðinu og vefborðum í eina viku á visir.is og mbl.is.
Er farið fram á að í afsökunarbeiðninni komi fram að kærurnar hafi verið dregnar til baka þar sem ekki hafi reynst fótur fyrir þeim og að beðist sé afsökunar á því að hafa haft frammi rangar sakargiftir gagnvart Arnari og félögunum Sante ehf. og Santewines SAS. Veittur er frestur til að verða við kröfunni til klukkan 15 á miðvikudag.