Scott Estill ræddi reynslu sína í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins í kvöld. Hann segist þakklátur fyrir lífgjöf björgunarsveita.
Scotts var leitað í tæpar þrjátíu klukkustundir en hann hafði orðið viðskila við konu sína á göngu frá gosstöðvunum við Fagradalsfjall. Hann datt á höfuðið og rotaðist en þegar hann vaknaði hafði veður breyst til hins verra og skyggni var ekkert.

Þrjú hundruð manns tóku þátt í leitinni að Scott og sú leit skilaði árangri þegar Scott fannst um fjóra kílómetra frá þeim stað sem hann varð viðskila við konu sína.
Þyrlur voru meðal annars notaðar við leitina og segir Scott að hann hafi séð þyrlur fljúga yfir höfði sér. „Ég stóð upp og veifaði og öskraði. Ég sá þá en þeir sáu mig ekki. Og að sjá þá fljúga hjá, ég hugsaði bara að ég vissi ekki hvort ég fengi fleiri tækifæri,“ segir hann.
Bjóst ekki við að sjá nokkurn framar
Scott segist aldrei hafa séð fegurri sjón en björgunarsveitamennina sem fundu hann enda var hann hætt kominn og búinn að missa trúna á því að hann findist á lífi. Hann segist hafa brotnað algjörlega niður þegar hann sá björgunarsveitarkonuna sem kom fyrst að honum.
„Hefði leitarfólkið gefist upp klukkutíma fyrr væri ég ekki hér. Að segja að ég eigi björgunarfólkinu líf mitt að launa er vanmat. Og hugulsemin og stuðningurinn sem ég hef fengið frá Íslendingum er eitthvað sem ég gleymi aldrei,“ segir Scott með tárin í augunum.
Scott segir að hann muni koma aftur til Íslands með fjölskyldu sína um leið og færi gefst. Scott var hér á landi ásamt konu sinni Becky til að halda upp á 35 ára brúðkaupsafmæli þeirra.