Boðnir voru til sölu að lágmarki 40 milljón hlutir í formi nýrra hlutabréfa í Solid Clouds en heimilt er að stækka grunnstærð útboðsins í allt að 58 milljónir hluta. Verð á hlut í útboðinu er 12,5 krónur á hlut.
Í útboðinu bjóðast tvær áskriftarleiðir. Tilboð undir 15 milljónum króna falla undir áskriftarbók A, en hærri tilboð í áskriftarbók B. Lágmarkstilboð verður 100 þúsund krónur.
Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að tilboð fyrir 1,8 milljarð hafi borist í áskriftarbók A og tilboð fyrir 0,9 milljarða í bók B.
Ekki kemur fram hvort til standi að stækka útboðið í 58 milljónir hluta en til stendur að tilkynna úthlutunina á morgun.
Sjá einnig: Hlutafjárútboð Solid Clouds hafið
Haft er eftir Stefáni Gunnarssyni, forstjóra Solid Clouds, að forsvarsmenn fyrirtækisins sé þakklátir þeim áhuga sem fjárfestar hafi sýnt. Um mikilvægt skref í sögu fyrirtækisins sé að ræða.
„Fyrirtækið er nú í góðri stöðu fyrir næsta fasa í vexti þess og hlutafjárútboðið mun gera okkur kleift að stökkva á framtíðartækifæri,“ segir Stefán. „Ég vil sömuleiðis þakka starfsfólki Solid Clouds fyrir vinnu þeirra og eldmóð.“