Mörkin voru skoruð í fyrri þremur leikjunum í 10. umferð Pepsi Max-deildar karla í gærkvöld. Seinni þrír leikirnir fara fram í kvöld.
Breiðablik var 2-1 undir þegar tíu mínútur voru til leiksloka í Kórnum í gær en náði samt að vinna sigur. Arnþór Ari Atlason kom HK yfir í fyrri hálfleik, eftir slæm mistök Antons Ara Einarssonar í marki Blika, en Kristinn Steindórsson jafnaði metin með skalla.
Birnir Snær Ingason kom HK aftur yfir úr víti á 71. mínútu en Blikar fengu einnig víti sem Thomas Mikkelsen skoraði úr á 84. mínútu. Það var síðan Andri Rafn Yeoman sem skoraði sigurmarkið þegar skammt var eftir.
Það var einnig skorað mikilvægt mark undir lok leiks á Hlíðarenda þar sem Arnór Borg tryggði Fylki stig eftir laglegan samleik við Þórð Gunnar Hafþórsson en báðir höfðu þeir komið inn á sem varamenn. Valur komst yfir á 55 mínútu þegar boltinn virtist hrökkva af Jordan Brown í markið eftir hornspyrnu, en markið er skráð á Hauk Pál Sigurðsson á leikskýrslu á vef KSÍ.
Brynjar Ingi Bjarnason, miðvörður KA sem er á leið í atvinnumennsku, átti engan draumaleik í Kaplakrika þar sem FH og KA gerðu 1-1 jafntefli. Björn Daníel Sverrisson sneri sér framhjá honum og uppskar svo víti sem Steven Lennon skoraði úr. Brynjar missti svo boltann þegar FH komst fram í skyndisókn sem endaði með því að Dusan Brkovic braut á Ágústi Eðvaldi Hlynssyni og fékk rautt spjald.
Tíu KA-menn náðu hins vegar að jafna þegar Jonathan Hendrickx skoraði eftir gott „pot“ Ásgeirs Sigurgeirssonar þegar korter var til leiksloka.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.