Maðurinn fannst heill á húfi á áttunda tímanum í gærkvöld. Hann fannst vestan við Núpshlíðarháls, eða um það bil fjórum kílómetrum frá þeim stað þar sem hann varð viðskila við eiginkonu sína. Jónas Guðmundsson er í vettvangsstjórn Landsbjargar.
„Við vinnum þetta þannig að þegar fólk týnist þá byrjum við að leita mjög þétt í kringum þann stað sem viðkomandi sást síðast, við byggjum á tölfræði frá fyrri leitum. Og í þessu tilfelli var það langur tími liðinn að við erum farin að vinna okkur út frá þeim stað í allar áttir. Þetta er svolítið eins og að kasta steini í tjörn, að þá verða ölduhringir,” segir Jónas Guðmundsson, í vettvangsstjórn Landsbjargar.
„Eftir því sem lengri tími líður því lengri tíma hefur viðkomandi til þess að labba lengra í burtu. Það var raunverulega bara þetta kerfi okkar sem leiddi okkur að honum á þessum tímapunkti,” segir hann.
Jónas segir að eðlilega hafi viðbrögð mannsins verið góð þegar hann loks mætti björgunarfólki.
„Hann var náttúrlega bara eins og allir sem að þessu koma. Glaður og sáttur við að vera fundinn og líklega meira glaður og sáttur en flestir, ef ekki allir. En það er líka bara þannig að þeir sem að þessu koma, lögregla, við og gæslan – menn eru auðvitað mjög sáttir þegar þetta endar svona og sérstaklega eftir þennan tíma.”
Heldur vonandi áfram að ferðast um landið
Hann segir björgunarfólk aldrei hafa leyft sér að verða svartsýn.
„Nei veistu við leyfðum okkur ekki að vera svartsýn á svona tímapunkti en auðvitað er ein sviðsmyndin sú að hlutir fari á versta veg. En þarna var búið að vera ágætis veður, hann var þokkalega búinn og við vorum alveg bjartsýn á þessum tímapunkti á að við myndum finna hann vonandi fyrr en síðar.”
Ástandið á manninum var ágætt
„Hann var nokkuð vel staddur. Hann var í ágætis dúnúlpu, hann hafði eitthvað hruflað sig og dottið og eitthvað þess háttar en annars bara nokkuð góður. Og hann fékk þarna mat og eitthvað að drekka hjá björgunarsveitarfólkinu og svo kom þyrlan og sótti hann og flutti hann á Borgarspítalann í læknisskoðun,” segir Jónas.
„Þetta voru einhverjar smá hruflur og hann heldur vonandi bara áfram að ferðast um Ísland, reynslunni ríkari. Kannski fékk að kynnast náttúrunni aðeins betur en hann átti von á.”