Lukaku hefur verið heitur á EM í sumar þar sem hann hefur skorað þrjú mörk í fyrstu þremur leikjunum.
Hann var einnig frábær í ítalska boltanum á síðustu leiktíð þar sem hann varð Ítalíumeistari með Inter Milan.
„Ég hef bætt mig mikið en reyni alltaf að gera meira. Það tala allir um formið á mér en ég held að þetta snúist meira um að ég hef bætt mig,“ sagði Lukaku.
„Núna prufa ég að taka næsta skref á ferlinum og markmiðið er að vinna EM með Belgíu.“
„Þegar fólk talar um Robert Lewandowski, Karim Benzema eða Harry Kane þá eru þeir sagðir í heimsklassa. Þegar fólk talar um mig, þá segir fólk bara að ég sé í góðu formi.“
„Það hvetur mig að leggja meira á mig og verða sterkari. Mér finnst að ég eigi að heyra til á listanum yfir þá leikmenn sem eru í heimsklassa,“ bætti Lukaku við.
Belgar mæta Portúgal á sunnudagskvöldið í sextán liða úrslitum EM.