KA-menn hafa aðeins nýtt tvær af sex vítaspyrnum sínum í Pepsi Max deildinni í sumar. Þetta er þó ekki nýtt vandamál hjá KA-liðinu. Það sést með því að skoða vítanýtingu liðsins undanfarin sumur.
Hallgrímur Mar Steingrímsson skoraði úr fyrstu tveimur vítaspyrnum sumarsins en báðar komu á móti Leikni í 3. umferðinni.
Hallgrímur Mar klikkaði síðan í tveimur leikjum í röð, fyrst í Keflavík og svo á heimavelli á móti Víkingum í 1-0 tapi.
KA hafði ekki fengið víti síðan en það breyttist í gær. Nú var komið að öðrum en Hallgrími að spreyta sig en niðurstaðan var sú sama.
Fyrst lét Jonathan Hendrickx verja frá sér víti og svo skaut Sebastiaan Brebels í slána.
Þetta var í fyrsta sinn síðan á fyrsta degi októbermánaðar 2010 sem sama lið klikkar á tveimur vítaspyrnum í leik en Tryggvi Guðmundsson klúraði þá tveimur vítaspyrnum ÍBV á móti Grindavík á Hásteinsvelli.
Þessi vítavandræði KA-manna eru ekki ný af nálinni. Þeir klikkuðu reyndar bara á einu af fimm vítum sínum í fyrra en sumarið 2019 þá fóru einnig fjórar vítaspyrnur forgörðum. Hallgrímur Mar klúðraði þremur þeirra og er því með fimm vítaklúður á síðustu sumrum.
KA-liðið hefur þannig klúðrað níu vítaspyrnum á síðustu tveimur og hálfu tímabili.
Vítanýtingin á þessum þremur sumrum er 11 mörk úr 20 vítaspyrnum sem gerir 55 prósent vítanýtingu.