Því til viðbótar eru afmæli, brúðkaup, steggjanir og gæsanir skipulagðar um allt land. Það má því reikna með því að vínið flæði og timburmenn á sunnudeginum verði mögulega sögulegir, hvað fjölda timburmanna varðar í það minnsta.
Við bætist auðvitað uppsöfnuð partýþörf eftir kórónuveiruárið 2020. Árið þar sem fresta þurfti stórafmælum, brúðkaupum og veislum af öllum toga. Nú þegar slakað hefur verið verulega á samkomutakmörkunum og góður gangur er í bólusetningum er víða komið að því að blása til veislu.
Finna fyrir veislunum í Vínbúðinni
Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir starfsfólkið finna vel fyrir veislustandi í sumar. Reikna má með að margir leggi leið sína í vínbúðirnar í dag að versla inn fyrir morgundaginn.

„Við sjáum það sem gerist í dag ekki fyrr en á morgun,“ segir Sigrún Ósk. Starfsfólkið hafi þó fundið fyrir auknu álagi. Koma verði í ljós hvort fólk sé búið að gera ráðstafanir fyrir veislur morgundagsins eða örtröð verði í dag.
En veislutímabilið sé svo sannarlega hafið.
„Þau hafa fundið fyrir því í veisluþjónustunni að það eru veislur fram undan. Það er uppsöfnuð veisluþörf,“ segir Sigrún Ósk. Háskólaútskriftunum fylgi auðvitað fjöldi veisla.
Allt uppbókað um helgina
Þegar skipuleggja á flotta veislu eru margir sem stækka húsnæðið sitt með því að henda upp tjaldi í garðinn. Einhverjir fylgdust með nágrönnum sínum nýta frídaginn í gær til að setja upp tjald í garðinum.
Seglagerðin er á meðal þeirra sem leigja út tjöld. Björgvin Barðdal, seglasaumari hjá Seglagerðinni, finnur sannarlega fyrir veisluhöldum helgarinnar.

„Þessi helgi er öll uppbókuð og sú næsta líka,“ segir Björgvin. Tjöldin eru af öllum stærðum og gerðum, svo eru bekkir, borð og fleira sem fólk næli sér í fyrir veislur. Leiga á slíkum búnaði í kórónuveirufaraldrinum hafi verið engin, eðli máls samkvæmt, en nú sé allt á uppleið.
„Flestum er boðið í fjórar til fimm veislur um helgina, með kostum og göllum,“ segir Björgvin.