Skoðun

Samfylkingin er samfylking

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Eftir að Vg gekk í Sjálfstæðisflokkinn eru valkostirnir orðnir enn skýrari fyrir jafnaðarmenn og félagshyggjufólk: fólk sem vill sjá breytingar og umbætur; fólk sem vill sanngjarnt skattkerfi þar sem þau ríku skila sínu til samfélagsins; fólk sem vill að hér sé fjölskylduvænt velferðarsamfélag; fólk sem vill að sjúklingar í neyð séu ekki settir á biðlista; fólk sem vill uppbyggingu á hjúkrunarheimilum; fólk sem vill metnað í loftslagsmálum; fólk sem vill almennilegt auðlindaákvæði í stjórnarskránni og jöfnun atkvæðisréttar; fólk sem vill að aðildarviðræður við ESB verði kláraðar; fólk sem vill að almannahagsmunir séu teknir fram yfir sérhagsmuni – félagshyggjufólk og jafnaðarmenn.

Öll þessi sjónarmið eiga ríkan hljómgrunn meðal stuðningsmanna og frambjóðenda margra flokka en aðeins Samfylkingin getur leitt öll þessi öfl saman. Það sýna dæmin frá Reykjavík og annars staðar á landinu þar sem Samfylkingin er kjölfestan í stjórn sveitarfélaganna. Vg og Framsókn munu horfa til Sjálfstæðisflokksins eftir kosningar ef ekki er öflugur valkostur á vinstri kantinum; Sósíalistar verða stjórnarandstöðuflokkur hvernig sem allt skipast, eins og í borgarstjórn Reykjavíkur, þar sem Píratar og Viðreisn eiga í farsælu samstarfi við Samfylkingu og Vg.

Samfylkingin var ekki stofnuð til að vera söfnuður. Hún var ekki stofnuð fyrir fólk að sitja og kinka kolli hvert framan í annað í fullvissu þess að hafa rétt fyrir sér í einu og öllu eða vera sammála um alla skapaða hluti. Hún var heldur ekki stofnuð til að fylkja sér kringum „sterkan leiðtoga“ sem ætti bara að ráða þessu öllu. Hún er einfaldlega stofnuð til að leiða félagshyggjuna til öndvegis við stjórn landsmála. Hún er stofnuð til að leiða saman íslenska jafnaðarmenn úr öllum mögulegum áttum og fá þá til að sameinast um hugsjónir sínar svo að þær verði raunverulegt afl sem skiptir máli í lífi fólks. Aðrir flokkar á svipuðu róli koma og fara og eiga það sameiginlegt að ausa úr hugmyndabrunni jafnaðarmanna, sem er eðlilegt vegna þess að sá hugmyndabrunnur er ótæmandi og öllum opinn og þar er margt sem höfðar sterkt til kjósenda. Aðrir flokkar eru líka stundum eindregnari og hvassari í málflutningi en gamli móðurflokkurinn. Það er líka eðlilegt. En það er bara einn flokkur sem getur leitt saman þessi öfl, og það er Samfylkingin, vegna þess einfaldlega að Samfylkingin er samfylking; það er sjálft erindi flokksins – það er sjálft DNA flokksins.

Þetta er einfalt: Sé Samfylkingin veik myndar Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstjórn. Sé Samfylkingin sterk verður félagshyggjustjórn.

Það er alveg hægt að stjórna landinu án þess að Sjálfstæðisflokkurinn sé þar með neitunarvald.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×