Á vefsíðunni segir að Magnea hafi verið ráðin inn sem viðskiptastýra þar sem hún komi til með að halda góðu sambandi við viðskiptavini og vera með yfirlit á verkefnum.
Magnea er með AA gráðu í samskiptafræði og BS í viðskiptafræði frá International American University og stundar núna nám með vinnu hjá Háskóla Íslands þar sem hún lærir viðskiptastjórnun. Á meðan hún stundaði nám í Los Angeles vann hún sem framkvæmdastjóri hjá Royal Exotic Car Rental sem leigir út lúxus bifreiðar.
Magnea starfaði við mannauðsmál hjá World Class þar sem aðalmarkmiðið var betri líðan starfsfólks og aukin sala á vörum.
„Í þessu samhengi setti hún upp World Class skóla þar sem farið var yfir hegðun gagnvart viðskiptavinum, sölukunnáttu og samskipti á milli samstarfsfélaga. Innleiðing á Workplace by Facebook, stjórnun starfsmannaatburða, bókhald og starfsmannabónusar voru meðal verkefna sem Magnea leysti fyrir World Class.“
Vakin er athygli á því að Magnea þekki vel til markaðssetningar enda með yfir 25 þúsund fylgjendur á Instagram og haldi út hlaðvarpinu Glamúr.