Óskar Örn Hauksson skoraði tvö mörk þegar KR sigraði ÍA, 3-1, á Meistaravöllum. Þetta var fyrsti heimasigur KR-inga á tímabilinu. Kjartan Henry Finnbogason var einnig á skotskónum og skoraði sitt fyrsta mark fyrir KR síðan 2014.
Ísak Snær Þorvaldsson skoraði mark Skagamanna sem hafa tapað tveimur leikjum í röð.
Fylkir og Stjarnan skildu jöfn í Árbænum, 1-1. Garðbæingar voru manni færri frá 37. mínútu þegar Emil Atlason var rekinn af velli fyrir að sparka í Arnór Gauta Jónsson.
Stjarnan hafði komist yfir á 24. mínútu með marki Magnusar Clausen. Djair Parfitt-Williams tryggði Fylki svo stig þegar hann skoraði á 80. mínútu. Stjörnumenn bíða því enn eftir sínum fyrsta sigri á tímabilinu.
HK vann loksins leik þegar liðið sigraði nýliða Leiknis, 2-1, í Kórnum. Jón Arnar Barðdal kom HK-ingum yfir á 32. mínútu og sex mínútum síðar bætti Birnir Snær Ingason öðru marki við.
HK fékk upplagt færi til að komast í 3-0 skömmu síðar en Guy Smit varði vítaspyrnu Stefans Alexanders Ljubicic.
Sævar Atli Magnússon minnkaði muninn fyrir Leiknismenn á 69. mínútu með marki sem HK-ingar voru afar ósáttir við að fengi að standa. En nær komust Breiðhyltingar ekki.
Sjöundu umferð Pepsi Max-deildarinnar lýkur með þremur leikjum mánudaginn 7. júní. Þá mætast KA og Breiðablik, FH og Keflavík og Valur og Víkingur.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.