Um 5.000 manns hafa flúið frá borginni Goma til Rúanda, að því er AP-fréttastofan greinir frá. Þá hafa Önnur 25.000 leitað hælis í bænum Sake, í norðvesturhluta Kongó.
AP hefur eftir UNICEF að yfir 170 barna sé saknað eftir að fólk þurfti að flýja heimili sín í flýti. Samtökin hafa nú komið upp sérstökum hjálparmiðstöðvum til þess að aðstoða börn sem hafa orðið viðskila við foreldra sína á flóttanum.
„Ég bið um hjálp því allt sem ég átti er horfið,“ hefur AP eftir Aline Bichikwebo, íbúa þorpsins Bugamba. Henni tókst að flýja heimaþorp sitt ásamt kornungri dóttur sinni áður en hraunstraumurinn rann í gegn um það og kveikti í fjölda húsa. Foreldrar hennar komust ekki undan og létust báðir.
Yfirvöld hafa staðfest að minnst tíu hafi látist í Bugamba. Þá létust fimm manns sem verið var að ferja frá borginni Goma í bílslysi. Yfirvöld segja þó að ekki sé búið að ná utan um tölu látinna og gera fastlega ráð fyrir að hún muni hækka þegar almennilega verði hægt að meta það tjón sem hamfarirnar hafa valdið.
Hér að neðan má sjá staðsetningu eldfjallsins á gagnvirku korti.