Róbert Ísak var þriðji í undanrásunum í 200 metra fjórsundi í SM14 flokki í morgun. Hann synti á 2:16,78 mínútum. Í úrslitasundinu gerði hann gott betur og synti á 2:14,85 mínútum. Róbert á Íslandsmetið í greininni en það er 2:14,16.
Þessi flotti árangur skilaði Róberti fjórða sæti sundsins en þar sem sigurvegarinn Gabriel Bandera frá Brasilíu var gestakeppandi á mótinu í dag þá var Róbert Ísak færður upp um eitt sæti. Það þýddi að Róbert hreppti bronsið.
Már Gunnarsson keppti til úrslita í 100 metra skriðsundi í flokki S11. Hann endaði í 7. sæti en Már synti á 1:04,21 mínútu. Hann var einnig nálægt eigin Íslandsmeti eða tæpar tvær sekúndur.