Íslenski boltinn

Mikil vinna, bæði innan sem utan vallar, skilaði þessum sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Óskar Smári Haraldsson og Guðni Þór Einarsson stýra liði Tindastóls á fyrstu leiktíð þess í efstu deild.
Óskar Smári Haraldsson og Guðni Þór Einarsson stýra liði Tindastóls á fyrstu leiktíð þess í efstu deild. Vísir/Sigurjón Guðni

Óskar Smári Haraldsson, annar af þjálfurum nýliða Tindastóls, var eðlilega himinlifandi þegar blaðamaður loks náði í hann til að ræða fyrsta sigur Tindastóls í efstu deild kvenna í knattspyrnu.

Tindastóll gerð sér lítið fyrir og lagði ÍBV 2-1 á Sauðárkróki í dag. Eyjastúlkur unnu Íslandsmeistara Breiðabliks 4-2 í síðustu umferð á meðan leik Tindastóls gegn Fylki var frestað vegna fjölda tilfella Covid-19 í Skagafirðinum. Það kom þó ekki að sök og liðið vann sinn fyrsta sigur í efstu deild í dag.

„Þessi sigur er sætur, en alls ekkert framar vonum. Við erum í þessu til þess að vinna, það er ekkert flóknara en það,“ sagði Óskar Smári en Stólarnir eru með fjögur stig að loknum tveimur leikjum.

„Leikurinn var vel spilaður af okkar hálfu og við héldum stjórn stóran part af honum. Mikil vinna bæði innan og utan vallar skilaði þessum sigri. Það ásamt frábærri liðsheild hefur skilað þessari góðu byrjun en ég tel að það sé erfitt að finna jafna sterka liðsheild og er hægt að finna hjá okkur á Króknum,“ sagði þjálfarinn að endingu.

Tindastól bíður erfitt verkefni í næstu umferð en þær heimsækja Íslandsmeistara Breiðabliks á miðvikudaginn kemur, 19. maí.


Pepsi Max deild kvenna er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×