„Hann er mjög erfiður viðureignar, það logar lengi í honum og undir grjóti. Við erum aðalega að pæla í ytri rammanum því að gosið spýtir frá sér miklu lengra en hættusvæðið okkar er þannig að það er umhugsunarefni,“ segir Hjálmar Hallgrímsson, vettvangsstjóri hjá Lögreglunni á Suðurnesjum.
„Við erum dálítið óttaslegin að þetta nái upp á Fagradalsfjall þar sem er samfelldur mosi. Annars er mosinn bara mjög strjáll þarna alveg við gosstöðvarnar.“
Miklir gróðureldar hafa kviknað vegna hrauns sem spýtist úr gígunum og lendir glóandi á gróðri í kring. Að sögn Hjálmars leggur mikinn reyk frá gróðureldunum og því sé mengun á svæðinu mikil.
„Það er erfitt að koma sér út úr öllum reyk og ég tala nú ekki um fyrir þá sem eru viðkvæmir, þeir eiga ekki að láta sjá sig þarna,“ segir Hjálmar.
Lokað verður að gosstöðvunum í dag en Hjálmar gerir ekki ráð fyrir að lokað verði á næstu dögum. Engin vakt er á svæðinu eins og er en hún verður sett upp þegar nær kvöldi dregur. Að sögn Sigurðar Bergmann, aðalvarðstjóra hjá lögreglunni á Suðurnesjum, hafa ekki margir farið að gosstöðvunum í dag.