Skoðun

Guðspjallið spilaði ...

Guðmundur Andri Thorsson skrifar

Johann Sebastian Bach hefur stundum verið nefndur fimmti guðspjallamaðurinn. Slíkar tilfinningar vakna með hlustanda í kirkju þegar tónlist hans flæðir þar um hvelfingar, mótettur hans, óratoríur, tokkötur og fúgur. Tónlist hans og annarra meistara kirkjutónlistarinnar opnar svið innra með hlustandanum sem rökhugsunin nær ekki fyllilega til, orðin eða frásagnirnar. Þegar vel tekst til skynjar hlustandinn voldugar kenndir hrærast innra með sér, sem fátækleg orð ná ekki að lýsa.

Þetta gerist ekki af sjálfu sér. Að baki býr mikil vinna, sérstök færni og djúp þekking. Hörður Áskelsson hefur í yfir fjörutíu ár staðið fyrir slíkum tónlistarflutningi í Hallgrímskirkju. Hann hefur laðað til sín margt af besta söngfólki landsins og starfrækt tvo afburða kóra, Mótettukórinn og Schola Cantorum. Þetta er ævistarf hans, og Hallgrímskirkja hefur verið vettvangur þess starfs. Hann hefur lært á hljóm kirkjunnar, fundið hvernig má láta undrið gerast, þegar ómur nær að senda ljósgeisla inn í sálina. Hann hefur spilað guðspjallið.

Hann hefur gert manna mest til að gera Hallgrímskirkju að höfuðkirkju. Og nú þegar líður að leiðarlokum skyldi maður ætla að fulltrúar Hallgrímskirkju, prestar hennar og þjóðkirkjan öll þakkaði mikið og gott starf og stuðlaði að farsælum starfslokum sem sómi væri að, ekki síst til að tryggja að tónlistin ómi áfram um hvelfingar kirkjunnar. En það er öðru nær. Herði er gert að yfirgefa þennan starfsvettvang sinn með skömm. Að baki býr vanmat á Herði sem listamanni, vanmat á hlut listarinnar í kirkjustarfinu, vanmat á samstöðu annarra listamanna með honum. Fyrir vikið er tónlistarstarf í kirkjunni í uppnámi, kórarnir tveir á förum og guðspjall fimmta guðspjallamannsins við það að hljóðna. Það hlýtur að vera hægt að vinda ofan af þessu klúðri.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×