„Við reiknum með að skila því til ákærusviðs á morgun. Þá eiga þau eftir að skoða málið áður en þau senda það væntanlega til héraðssaksóknara,“ segir Margeir.
Líkt og greint var frá í dag fór fram sviðsetning á atburðinum í Rauðagerði í morgun. Töluverður viðbúnaður var á staðnum þar sem hinn grunaði í málinu auk annarra með réttarstöðu sakbornings tóku þátt í að framkvæma sviðsetninguna.
„Þarna erum við að sannreyna og athuga hvort gögn passi saman, framburðir miðað við vettvang. Og þá köllum við til þá sem koma að málinu, bæði vitni og lögreglumenn og sakborninga,“ segir Margeir. Hann segir hins vegar engan grun leika á að um falska játningu hafi verið að ræða.
Aðspurður segir Margeir að sakborningurinn hafi lýst atvikum með skýrum hætti. Þá hafi eftirlíking af skotvopni verið notað.
Fjórtán hafa réttarstöðu sakbornings en Margeir getur ekki svarað til um hversu margir eigi yfir höfðu sér ákæru í tengslum við málið, það sé ákvörðun héraðssaksóknara að taka. Hann segir mennina ekki endilega grunaða um morðið sjálft heldur tengist málinu með ýmsum hætti, hvort sem um sé að ræða skipulagða glæpastarfsemi eða annað.