Sterkur vindur blæs nú lífi í eldinn sem brennur enn stjórnlaust í fjallinu sem er helsta kennileiti suðurafrísku stórborgarinnar. Slökkviliðsþyrlur sem vanalega væru notaðar til að ráða niðurlögum gróðurelds sem þessa hafa ekki komist á loft vegna roksins.
Eldurinn læsti sig í nokkrar byggingar Háskólans í Höfðaborg í gær og var háskólasvæðið rýmt, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Elsta vindmilla borgarinnar sem var enn í notkun og vinsæll veitingastaður urðu fyrir skemmdum í gær. Borgaryfirvöld rýmdu hluta Vredehoek-hverfisins þegar eldurinn nálgaðist það.
Karlmaður á fertugsaldri er í haldi lögreglu, grunaður um íkveikju en ekki er ljóst hvort að hann hafi kveikt eldinn, að sögn AP-fréttastofunnar. Hann var handtekinn í gærkvöldi eftir að sást til þriggja einstaklinga sem kveiktu fleiri elda í fjallinu.
Þykkan reyk leggur yfir Höfðaborg frá eldinum sem takmarkar skyggni.