Innlent

193 km hraða og nýkominn með bílpróf

Samúel Karl Ólason skrifar
Það er óhætt að segja að ökumenn hafi ekki verið til fyrirmyndar í gærkvöldi og í nótt.
Það er óhætt að segja að ökumenn hafi ekki verið til fyrirmyndar í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregluþjónar stöðvuðu í nótt bíl í Reykjavík sem mældist á 193 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði var 80 kílómetrar. Ökumaður bílsins var ekki orðinn átján ára gamall og því var foreldrum hans og barnavernd gert viðvart um ofsaaksturinnn.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem segir einnig að á fjórða tímanum í gær hafi bíll verið stöðvaður í Hafnarfirði en honum hafði verið ekið á minnst 151 kílómetra hraða. Þar var hámarkshraði einnig 89 kílómetrar.

Þar að auki barst tilkynning um slys í Árbæ rétt fyrir þrjú í nótt. Þar hafði bíll lent á ljósastaur en ökumaður hans var vistaður í fangaklefa í nótt vegna gruns um að hann hafi verið ölvaður við akstur.

Þó nokkrir aðrir ökumenn voru stöðvaðir í gærkvöldi og í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Einn þeirra reyndist aldrei hafa fengið ökuréttindi.

Lögreglunni barst einnig tilkynningar um slagsmál og líkamsárás í miðbænum í gærkvöldi. Þá var einnig tilkynnt um þjófnað úr geymslu fjölbýlishúss í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×