Slökkviliðsmenn björguðu konu upp úr því sem Bjarni Ingimarsson, aðstoðarvarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, lýsti sem brunni eða gamalli rotþró við Vísi í morgun. Konan féll einn og hálfan til tvo metra ofan í vatn og komst ekki upp sjálf. Félögum hennar tókst að halda henni upp úr vatninu þar til slökkvilið kom á staðinn.
Konan var orðin köld og þrekuð en gat þó gengið sjálf í sjúkrabíl sem flutti hana á sjúkrahús til skoðunar.
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, segir í samtali við fréttastofu að um gamalt brunnhús sé að ræða. Það hafi verið vatnsból á bújörð á einkalandi í einkaeigu. Brunnhúsið hafi verið lokað en að einhver hafi greinilega opnað það.
Starfsmenn bæjarinar hafi farið á staðinn í gærkvöldi og lokað brunnhúsinu. Bærinn muni hafa samband við eigendur í framhaldinu.
Leiðrétting Upphaflega fylgdi fréttinni mynd af brunnhúsi í Mosfellsbæ. Hún var fjarlægð þegar í ljós kom að hún var af öðru brunnhúsi nærri þeim stað þar sem konan féll niður.