„Ég mun ekki taka þátt í því að breyta sóttvarnarlögum núna þegar menn hafa ekki beitt viðurlögum, né sýnt fram á að fólk hafi verið að brjóta sóttkví. Byrjum á að sýna fram á það, að fólk hafi brotið sóttkví, byrjum á því að beita viðurlögum og sekta þá sem það gera. Þetta er algjör vitleysa,“ segir Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við Vísi.
Mikil óvissa er uppi eftir úrskurð sem féll í héraði í gær þess efnis ekki sé heimilt að skikka fólk í sóttvarnarhús eigi það þess kost að dvelja heima hjá sér í sóttkví.
Stuðningur innan Sjálfstæðisflokksins við lagabreytingar lítill
Meðal þess sem nú er rætt er að kalla saman þing og breyta lögum til að mæta þessu. Brynjar telur það fráleitt.
„Ef menn líta til meðalhófsreglu er ekki hægt að leyfa sér slík vinnubrögð. Fráleitt að koma inná þingi breytingu á sóttvarnarlögunum. Ég myndi aldrei taka þátt í því. hreinar línur með það. ég veit ekki, gæti orðið tæpt á þinginu. menn verða að koma sér niður á jörðina, hvert erum við komin?“
Brynjar telur víst að ýmsir innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins myndu seint fella sig við slíkar lagabreytingar. Hann segir að menn verði að horfa til aðstæðna; það sé ekki svo að fólk sé að deyja eða um sé að ræða álag á heilbrigðiskerfið.

„Tilgangurinn helgar ekki meðalið,“ segir Brynjar sem nú er staddur á Spáni. Hann furðar sig á því að ef hann komi heim ósmitaður og ekki sé líklegt að hann hafi verið í kringum einhvern smitaðan að hann yrði þá skikkaður í sóttvarnarhús. En þetta eigi bara við þá sem eru að koma til landsins, ekki þá sem komist í návígi við einhvern smitaðan hér heima.
Segir að það þýði ekki að stilla sér upp við vegg
„Sér enginn mótsögn í þessu? Eða eru menn orðnir sturlaðir. Það er stóra spurningin.
Maður veltir því fyrir sér, hvort menn séu að tapa sér í svona ástandi? Missa skynsemina og alla dómgreind. Að allt megi?
Af því að við erum öll almannavarnir og sóttvarnaryfirvöld ætla að vera best í heimi?“ spyr þingmaðurinn og ljóst að honum sýnist ríkja fullkomið fár.
Brynjar segir að hann efist stórlega um að formaður flokksins, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra reyni að setja þingmönnum stólinn fyrir dyrnar. Hann viti að það þýði ekkert að tala svo við sig eða Sigríði Á. Andersen ef því er að skipta.
Þá segist Brynjar ekki vera slíkur maður að hann ætli vilji ráðast á ráðherra eða hrópa eftir mótsögn. Það sé flókið að vera ráðherra þegar allir eru farnir af taugum og þetta sé snúið viðfangsefni. En það hljóti að vera svo að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra beri ábyrgð á þessari snurðu sem hlaupin er á þráðinn.