Í gær var greint frá því að enginn hefði greinst með kórónuveiruna daginn áður, á föstudag. Almannavarnir eru hættar að uppfæra tölfræðihluta vefsíðu sinnar, covid.is, um helgar. Því hefur síðustu helgar ekki verið hægt að nálgast tölur yfir framgang faraldursins á vefsíðunni.
Fjölmiðlar hafa því brugðið á það ráð að senda fyrirspurnir á samskiptadeild almannavarna eða hringja eftir tölum um helgar.
Í svari Hjördísar Guðmundsdóttur, samskiptastjóra almannavarna, við fyrirspurn fréttastofu í dag var þó litlar upplýsingar að fá, aðrar en að tölur dagsins væru „gleðilegar,“ og að tölur yrðu ekki uppfærðar um helgar.
„Næstu dagar verða áhugaverðir, þá sjáum við hvort það hefur tekist að ná utan um þetta allt,“ segir í svari Hjördísar, þar sem hún vísar væntanlega til hópsmits sem kom upp í síðustu viku.