Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum. Líkt og fram hefur komið mældist skjálfti af stærðinni 5,7 suðsuðvestur af Keili á Reykjanesi klukkan tíu í morgun. Fjöldi eftirskjálfta hefur fylgt í kjölfarið og að minnsta kosti tólf þeirra mældust yfir 4 að stærð. Síðasti skjálfti var 4,8 stig klukkan 12.37. Skjálftarnir hafa fundist víða á suðvesturhluta landsins og allt norður í Húnaþing og vestur á Ísafjörð.

Varað hefur verið við grjóthruni á Reykjanesskaga en þar hafa einnig sést hvítir gufustrókar á jarðhitasvæðum. Lögreglan á Suðurnesjum fylgist með áhrifum skjálftans og áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar flaug í morgun yfir Reykjanes til að kanna aðstæður. Þá hefur Veðurstofa Íslands hækkað litakóða fyrir flug á Reykjanesi yfir á gult.