Síðasta sumar var skiptingum fjölgað úr þremur í fimm vegna kórónufaraldursins. Það er í efstu tveimur deildunum en fyrir það voru fimm skiptingar leyfðar í 2. til 4. deild. Eftir að kórónuveiran stöðvaði undirbúning liða í Pepsi Max og Lengjudeildunum var ákveðið að fjölga skiptingum í þeim deildum.
Nú hefur verið ákveðið að slíkt hið sama muni eiga við í sumar.
„Þóroddur Hjaltalín, formaður dómaranefndar KSÍ, kynnti tillögu dómaranefndar um að fjölga leikmannaskiptingum tímabilið 2021 á sama hátt og gert var 2020," segir í fundargerð stjórnar Knattspyrnusambandsins.
„Reynslan af fyrirkomulaginu 2020 var góð að mati nefndarinnar. Stjórn KSÍ samþykkti tillögu dómaranefndar um fjölda leikmannaskiptinga 2021 [5 skiptingar]."