Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu þar sem greint er frá stöðu mála varðandi hreinsunarstarf og vöktun á svæðinu þar sem aurskriður féllu í sunnanverðum firðinum í desember.
Í undirbúningi er nú að koma fyrir nýjum veitustokk fyrir Búðará við Hafnargötu og sömuleiðis að koma fyrir ræsi undir Hafnargötu fyrir nýjan farveg frá varnargörðunum við slippsvæðið. Þar sé hönnun komin vel á veg og unnin í samstarfi við Vegagerðina.
Ekki þurfi að grípa til sambærilegra rýminga nema úrkoma sé meiri
Einnig segir frá því að á Seyðisfirði hafi uppsöfnuð úrkoma verið rúmlega 100 millimetrar frá laugardegi og fram á miðvikudag sem sé sú mesta sem komið hafi frá skriðuhrinunni upp úr miðjum desember. Auk rigningar hafi einnig verið leysing.
„Mælitæki til þess að vakta aurskriðuhættu í hlíðinni, sem komið hefur verið fyrir á undanförnum vikum, reyndust vel. Mælingar í borholum í Neðri-Botnum sýndu nokkuð hraða hækkun á vatnsborði á sunnudag og varð vatnshæð svipuð og hún var í lok desember. Nú er vatnshæð farin að lækka aftur.
Mælingar á hreyfingu jarðlaga með alstöð og sjálfvirkum GPS mælum sýna enga markverða hreyfingu. Það er góðs viti að þetta veður skuli ekki hafa valdið óstöðugleika í jarðlögum hlíðarinnar og þess vegna er ekki reiknað með því að það þurfi að grípa til sambærilegra rýminga á Seyðisfirði nema úrkoma og leysing verði nokkru meiri en nú varð,“ segir í tilkynningunni, en rýma þurfti þrjú hús um helgina vegna úrhellisins.