Fram kom í dag að rúmlega fertugur karlmaður, sem lýst hefur verið af lögreglumanni sem „langstærsta fíkniefnabarón á Íslandi,“ sé á meðal mannanna þriggja. Alls eru fjórir í haldi lögreglu vegna málsins en karlmaður frá Litháen hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til föstudagsins 19. febrúar.
Gerð var húsleit á nokkrum stöðum í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna málsins og samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var meðal annars ráðist í aðgerðir á Suðurlandi.
Lögregla hefur rætt við fjölda vitna í tengslum við málið að sögn Margeirs Sveinssonar yfirlögregluþjóns, sem stýrir rannsókn lögreglu. Rannsókn beinist meðal annars að því hvort árásin tengist uppgjöri í undirheimunum í tengslum við skipulagða brotastarfsemi.
Lagt hald á nokkra muni
Sérsveit ríkislögreglustjóra og önnur lögregluembætti aðstoðuðu við aðgerðirnar í gær. Maðurinn sem skotinn var til bana í Rauðagerði rétt fyrir miðnætti á laugardagskvöld var frá Albaníu en bjó hér á landi með íslenskri eiginkonu sinni. Saman eiga þau ungt barn og áttu von á öðru barni.
Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að lagt hafi verið hald á nokkra muni við rannsóknina. Hann vildi ekki upplýsa hvort skotvopnið sem notað var til að bana karlmanninum sé þeirra á meðal.