Þetta skrifar Colin O‘Brady, rithöfundur og fjallgöngumaður, sem var með hópnum á K2 fyrir helgi. Hann segir það óraunverulegt að hugsa til þess að þeir snúi sennilega ekki aftur, enda hafi þeir orðið nánir vinir.
„Af einhverjum ástæðum ákvað ég að hlusta á innsæið og snúa aftur. Nú er gengið út frá því að þeir séu ekki á lífi,“ skrifar O‘Brady á Instagram.
Lína Móey Bjarnadóttir eiginkona Johns Snorra Sigurjónssonar, sagði í tilkynningu til fjölmiðla í dag að fjölskyldan gerði sér grein fyrir því að vonin um að hópurinn fyndist á lífi væri mjög lítil. Þeirra hefur nú verið saknað í rúmlega þrjá sólarhringa.
„Ég á svo margar góðar minningar með öllum þessum mönnum. Ég trúi því ekki að þeir séu farnir,“ skrifar O' Brady.
Hann segir hug sinn vera hjá fjölskyldu þeirra og börnum, en þeir voru allir feður. „Þessir menn voru ótrúlegar manneskjur – góðhjartaðir, ástríkir og eins heiðvirðir og hugsast getur.“