Hákarl og brennivín, súrir hrútspungar, sviðasulta og harðfiskur verður eflaust á borðum margra Sunnlendinga í kvöld því þá fer Þorrablót Sunnlendinga fram í fyrsta sinn í beinu streymi.
Það er menningarfélag Suðurlands ásamt velunnurum sem hafa veg og vanda af þorrablótinu í kvöld í beinu streymi. Streymið hefst klukkan sjö og blótinu líkur um miðnætti. Hver og ein fjölskylda sér um sinn þorramat eða annað sem fjölskyldur kjós að hafa á þorrablótinu. Sigurgeir Skafti Flosason er einn af forsvarsmönnum Þorrablótsins.
„Þetta fer þannig fram að fólk er bara heima hjá sér í góðri stemmingu og græjar að kaupa mat frá einhverjum stöðum eða elda sjálft. Það eru allskonar þorrabakkar, sem eru á ferðinni núna, eru að fara um alla sýsluna, það eru veitingastaðirnir með einhvern "Take awa" seðil og svo er fólk bara með sinn mat heima. Þú ferð síðan inn á Tix og kaupir miða á Þorrablót Sunnlendinga.“
Sigurgeir Skafti segir að boðið verður upp á glæsilega dagskrá í beinni útsendingu.
„Já, það er einn hlutur sem verður að vera á þorrablóti og það er Guðni Ágústsson sjálfur“ segir Sigurgeir Skafti.

Ólafía Hrönn og Sóli Hólm munu sjá um veislustjórnina og svo verður fjölbreytt úrvals af tónlistar og skemmtiatriðum í allt kvöld. Sigurgeir Skafti segir mikla stemmingu fyrir þorrablótinu og mikið af brottfluttum Sunnlendingum og Sunnlendingum búsettir í útlöndum búnir að panta sér aðgang að blótinu.
„Viðtökurnar hafa verið mjög góðar, allavega það sem ég hef heyrt, ég veit af af partíum sem verða út í heimi, í Reykjavík og alls staðar af Suðurlandi,“
Hér er hægt er að kaupa miða á þorrablótið í kvöld fyrir áhugasama
