Í tilkynningu frá skrifstofu forseta segir að forsetahjónin muni á Egilsstöðum hitta fulltrúa þeirra mörgu sem unnu í fjöldahjálparstöðinni í Egilsstaðaskóla sem komið var á laggir í kjölfar skriðufallanna á Seyðisfirði þegar margir íbúar þurftu að yfirgefa heimili sín.
„Að morgni föstudagsins 5. febrúar liggur leiðin til Seyðisfjarðar þar sem forsetahjón munu fyrst hitta nemendur, kennara og starfsfólk í Seyðisfjarðarskóla.
Í kjölfarið fá þau leiðsögn um aðstæður á skriðusvæðinu og kynna sér stöð sem sett hefur verið upp til að hreinsa muni úr Tækniminjasafni Austurlands á Seyðisfirði sem varð illa úti í skriðunum.
Þá munu forsetahjón heimsækja Björgunarsveitina Ísólf og ræða við fulltrúa frá almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Rauða krossinum.
Forsetahjón halda heimleiðis síðdegis föstudaginn 5. febrúar,“ segir í tilkynningunni.