Af þeim 210 tilkynningum sem borist hafa flokkast 12 sem alvarlegar aukaverkanir og 198 ekki alvarlegar.
Átta tilkynningar hafa þá borist Lyfjastofnun um andlát í kjölfar bólusetningar og var þar um að ræða aldraða og hruma einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma í flestum tilfellum.
Í kjölfar fimmtu tilkynningarinnar um andlát í kjölfar bólusetningar voru tveir sérfræðingar fengnir til að rannsaka andlátin og hvort um hugsanlegar alvarlegar aukaverkanir vegna bólusetningar gegn Covid-19 væri að ræða. Niðurstöður bentu til að í fjórum þeirra tilfella væri ekki eða mjög ólíklega um orsakatengsl að ræða.
Í einu tilfelli var ekki hægt að útiloka tengsl með vissu þótt líklegra væri að undirliggjandi sjúkdómur hefði átt þátt í andlátinu.